Ljóta þvælan ...

Það er merkilegt hvað Davíð Oddsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri, kemst upp með að þvæla mikið um símtal hans við Mervyn King, Seðlabankastjóra Englands, árið 2008. Davíð hefur haldið því fram að Marvyn King hafi lofað sér því í símtalinu að Íslendingar þyrftu ekki að hafa áhyggjur af Icesave-ruglinu sem Davíð og félagar leyfðu  óáreittu að fara eins og það á endanum fór. Um þetta símtal er talsvert fjallað í skýrslu RNA um aðdraganda og afleiðingar Hrunsins, m.a. í 7. bindi þar sem sagt er frá viðbrögðum Árna Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra og flokksbróður Davíðs, um túlkun þess síðarnefnda á símtalinu (bls. 95-96):
Árni segir að Davíð hafi síðan lesið upp endurrit af símtali Davíðs og Mervyn King, bankastjóra Seðlabanka Bretlands, sem fram fór á ensku. Um þetta sagði Árni: „Hann lagði áherslu á það að Mervyn King hefði svona eiginlega verið að leggja blessun sína yfir þessa aðferðafræði að skipta upp bönkunum og það þýddi að það væri svo og svo mikið sem væri afskrifað. Ég veit ekki alveg hvort þetta er nákvæmt að skrifa hérna að hann mundi ekki mótmæla sem sagt Icesave, þetta ætti að vera víðtækara en bara Icesave, um aðgerðina í heild. En miðað við enska textann fannst mér Davíð leggja of mikið upp úr orðum Mervyn King, að hann væri að leggja blessun sína yfir það sem við værum að gera, bæði búinn að lesa of mikið í orðin sjálf og eins er það ekki Mervyn King að samþykkja einhverja svona hluti, jafnvel þótt hann sé seðlabankastjóri, það eru ráðherrarnir hinir sem taka ákvörðun um það.“
Víða í skýrslu RNA má finna vitnisburð um aumkunarverða framgöngu Davíðs í samskiptum sínum við Mervyn King og fleiri seðlabankastjóra sem reyndu hvað þeir gátu án árangurs að koma vitinu fyrir pólitíska vitleysinginn sem stýrði Seðlabanka Íslands á endanum í þrot. Fyrir áhugasama er ágætt að fletta upp á 1. bindi og 7. bindi skýrslunnar og gúggla „Mervyn King“ til að fá gott yfirlit yfir þau samskipti.
Hinir halda áfram við að reyna að gleyma.