Jónas Fr. Jónsson er fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins og núverandi stjórnarformaður LÍN. Hann skipar sér nú á bekk með öðrum fyrrverandi stjórnendum stórra og mikilvægra stofnana sem brugðust á ögurstundu í aðdraganda Hrunsins og reyna nú að endurskrifa söguna. Um þetta höfum við nokkur dæmi, t.d. hér, hér og hér, svo nýleg dæmi séu tekin.
Um Jónas og ábyrgð hans segir m.a. í fyrsta bindi skýrslu RNA um aðdraganda og ástæður Hrunsins (bls. 46):
„Nefndin telur einnig að annars vegar Jónas Fr. Jónsson, þáverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og hins vegar Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson, þáverandi bankastjórar Seðlabanka Íslands, hafi sýnt af sér vanrækslu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 í tilteknum störfum sínum við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi og eftirlit með henni.“
Áfram er fjallað um Jónas og Fjármálaeftirlitið í sjöunda bindi skýrslunnar (bls. 268)
„Ekki verður allur vandi Fjármálaeftirlitsins þó rakinn til ónógra fjárveitinga. Til dæmis skorti á að stjórn Fjármálaeftirlitsins tækist á við grundvallarspurningar svo sem um stærð bankakerfisins og nauðsynleg viðbrögð stofnunarinnar við allt of örum vexti þess. Stjórnin rækti því ekki skyldur sínar við stjórnun stofnunarinnar að því er varðar eitt af helstu hættumerkjum í þróun íslenskra fjármálafyrirtækja.“
Skýrsluhöfundar leggja því Jónas að jöfnu við Davíð Oddsson í umfjöllun sinni um aðdraganda Hrunsins. Það er kannski frekar vel í lagt en gerir þá báða engu að síður óhæfa til að fjalla um Hrunið, ástæður þess og afleiðingar.