Það er ekki oft sem maður sér vel skrifaðar og umhugsunarverðar blaðagreinar þessi misserin. Þó kemur ein og ein sem skilur eitthvað eftir, situr í manni og vekur mann til umhugsunar um mikilvæg mál. Eða bara um lífið og tilveruna.
Elín Hirst, þingmaður sjálfstæðisflokksins átti eina slíka grein í vikunni. Í henni segir Elín frá samtali sínu við einn af færustu læknum landsins sem útskýrir fyrir henni stöðuna á Landspítalanum, langvarandi fjársvelti, úrelt húsakynni og ónýtan tækjakost. Og eitthvað fleira sem Elín virðist hafa verið ómeðvituð um. Elín telur sig í framhaldinu knúna til að flytja skilaboð læknisins til þjóðarinnar sem hefur sjálfsagt ekki hugmynd um stöðu mála á þjóðarspítalanum. Þannig hefur Elín miðlað af þekkingu sinni á ástandinu á Landspítalanum vegna þess að Elín veit, af því það var sagt henni það.
Og nú vitum við það líka.
Það situr í mér.