Ráðþrota ræða Geirs H Haarde

Geir H. Haarde segir að „guð-blessi-Ísland“ ræða hans hafi verið sú mikilvægasta á hans ferli. Það er einnig mikið gert með þessa ræðu, sérstaklega þó af hægrimönnum sem margir hverjir telja ræðuna hápunkt íslenskrar stjórnmálasögu. Það er minna fjallað um innihald ræðunnar og boðskapinn sem í henni fólst. Þegar það er skoðað og þá í ljósi aðstæðna er þetta  sennilega ein lélegasta ræða sem nokkur forsætisráðherra á byggðu bóli hefur flutt þjóð sinni. Var Geir að telja kjark í þjóðina? Tilkynnti hann henni um leiðir úr vandanum? Axlaði hann sjálfur ábyrgð sem fyrrverandi fjármálaráðherra, utanríkisráðherra, varaformaður og síðan formaður sjálfstæðisflokksins og að lokum sem forsætisráðherra?
Nei. Í raun hélt Geir áfram að segja þjóðinni ósatt eins og hann hafði gert vikum og mánuðum saman fyrir Hrunið. Hann upplýsti að allar aðgerðir stjórnvalda til að draga úr tjóninu, í samstarfi við bankann, hefðu misheppnast. Hann færðist undan ábyrgð með því að kenna útlendingum um vandann. Hann lýsti því yfir að allt íslenska fjármálakerfið væri hrunið til grunna. Hann nefndi ekki pólitíska ábyrgð sína.
Guð-blessi-Ísland ræðan var ræða ráðþrota stjórnmálamanns sem átti það eitt eftir að biðja einhvern guð um að blessa þjóðina sína.
Geir Hilmar Haarde hefur ekki enn viðurkennt Hrunið eða gengist við mistökum sínum.
Það gera slakir stjórnmálamenn reyndar sjaldan.