Ójöfnuður aukinn með handafli

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar breytti skattkerfinu á síðasta kjörtímabili í tvennum tilgangi. Annars vegar til að afla tekna til að standa straum af sameiginlegum rekstri, t.d. velferðar- heilbrigðis- og menntakerfinu. Hins vegar til að gera skattkerfið réttlátara og sanngjarnara en það áður var. Það var gert með því að auka skatta á þá sem meira höfðu úr að spila en hlífa hinum eins og kostur var. Þær breytingar urðu til þess að jöfnuður jókst hraðar og meir en gerst hafði áður.
Þær skattkerfisbreytingar sem ríkisstjórn hægriflokkanna hefur nú tilkynnt um eru andstæða alls þessa. Þær létta byrðar af þeim sem meira hafa og á kostnað hinna eins og sjá má á vef RÚV sem hefur látið gera úttekt á boðuðum breytingum. Myndin sem er táknræn fyrir stefnu hægriflokka almennt, sýnir betur en flest annað hvað í vændum er og mun aftur leiða til aukins ójöfnuðar í samfélaginu eins og var fyrir Hrun. Það verður létt undir með þeim sem meira hafa á meðan aðrir verða látnir bera kostnaðinn af því.
Fjármálaráðherra lofaði meira af slíku í ræðu sinni á Alþingi í gær.
Auðvitað.
Þannig hljómar hugmyndafræðin.