Ímynduð ofbirta

Pétur Blöndal, þingmaður sjálfstæðisflokksins, er skemmtilegur maður. Hann hefur rekist illa í flokki sínum sem hefur í staðinn komið í veg fyrir frekari framgang Péturs í stjórnmálum. Flokkurinn hefur aldrei falið Pétri þá ábyrgð sem lesa má úr prófkjörum að kjósendur hans hafi viljað fela honum.
En hvað um það.
Nú brenndi félagi Pétur af úr sannkölluðu dauðafæri. Hann lýsir dómi Hæstaréttar um uppgjör við þrotabú gömlu bankanna (sem hann og Flokkurinn einkavinavæddu) sem einum bjartasta degi Íslandssögunnar. Áður hafði hann sagt eitthvað álíka um Icesave-dóminn fyrr á árinu.
Pétur hefði átt að doka aðeins við. Í fyrsta lagi gæti dómur Hæstaréttar hæglega komið Íslandi í mikil vandræði til lengri tíma litið eins og Andri Geir Arinbjarnarson bendir réttilega á í grein sinni á Eyjunni. Í öðru lagi er Icesave-málið enn óleyst, þ.e.a.s. það á enn eftir að borga allt ruglið sem einkavæðing Landsbankans og ónýt eftirlitskerfi stjórnvalda (Pétur og félagar) leiddi af sér. Hverja einustu krónu, með vöxtum.
Bæði málin hafa því í raun aukið enn á efnahagslega óvissu á Íslandi og eiga eftir að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.
Þeir sem líta svo á að Icesave-dómurinn og dómur Hæstaréttar hafi leitt birtu og yl í íslenskt samfélag hafa búið lengi í myrkrinu.
Þeir fá ofbirtu í augun með því að ímynda sér sólarglætu.