Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og einn meðlimur dauðasveitar stjórnarflokkanna, sagði víst í útvarpsviðtali að aftökulistinn þeirra væri orðinn langur. Meðal þess sem á að taka á er ferðakostnaður Alþingis til útlanda og fleira því tengdu.
Eitt af fyrstu verkum vinstristjórnarinnar 2009 var að skera rækilega niður í ferðakostnaði þingsins og stjórnarráðsins. Það var m.a. gert með því að takmarka mjög þann fjölda sem fór í utanferðir, bæði þingmanna og embættismanna. Ef aðalmenn komust ekki fór enginn í þeirra stað og makar fóru á eigin kostnað ef þeir vildu. Verulega var dregið úr fjölda ferða og þær styttar eins og mögulegt var. Svo mjög reyndar að við gátum naumast sinnt skyldum okkar að fullu. Bílastyrkir embættismanna voru að mestu lagðir niður og öllum gert að skila reikningum fyrir ferðum og útlögðum kostnaði. Kjararáði var kippt úr sambandi til að koma í veg fyrir launahækkanir og laun þingmanna og æðstu embættismanna voru lækkuð. Dregið var úr umsvifum utanríkisþjónustunnar, sendifulltrúum fækkað og sendiskrifstofum lokað, bæði í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og sjálfstæðismanna og á kjörtímabili vinstristjórnarinnar. Síðast en ekki síst var komið í veg fyrir áframhald á sérstökum eftirlaunakjörum sem á sínum tíma voru sérsniðin að þörfum þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar. Margt fleira má tína til í þessu samhengi.
Það er reyndar dálítið skondið í ljósi sögunnar að Vigdís skuli vísa til vel heppnaðrar sameiningar skattstofa á síðasta kjörtímabili. Hún bæði talaði og greiddi atkvæði gegn þeirri breytingu. En látum það liggja á milli hluta.
En er hægt að skera meira niður í samskiptum okkar við útlönd? Alveg örugglega. Ekki síst þegar í hlut eiga stjórnmálamenn sem vilja beinlínis einangra Ísland á alþjóðavettvangi, líkt og þau Vigdís Hauksdóttir og Ámundur Einar Daðason.
Ég er hins vegar ekki viss um vilja sjálfstæðismanna í þessum efnum sem hafa jafnan viljað vera í traustum og góðum samskiptum við önnur ríki og lagt mikið upp úr utanríkismálum.
En þeir láta sig sjálfsagt hafa það eins og annað.