Lítil saga um stóra flugvél

Þann 1. júlí 2009 lenti ný flugvél Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Vélin var og er ein fullkomnasta flugvél sem til er af þessari tegund. Hún hefur verið meira og minna í útleigu til ýmissa verkefna víða um lönd frá því hún kom til landsins.
Það sem færri vita er að það var ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum að vélin yrði greidd, hvað þá að fjármunir hafi verið ætlaðir til rekstrar. Þó voru fjögur ár liðin frá því samþykkt var að smíða vélina og flestir vissu að hennar var von. Það kom því í hlut nýrrar ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar að leysa úr því máli ofan í allt annað. Fulltrúar erlendra ríkja og alþjóðastofnana, sem þá voru hér á landi vegna Hrunsins, klóruðu sér í kollinum og gátu engan veginn áttað sig á því hvernig það gat gerst að samið hafi verið um smíði á svo fullkominni flugvél sem kostaði svona mikið án þess að leita til þess heimildar í fjárlögum. Það var síðan oft vitnað í þennan atburð sem dæmi um glórulausa stjórn ríkisfjármála. Björn Bjarnason var dómsmálaráðherra og æðsti yfirmaður Landhelgisgæslunnar þegar vélin var keypt og Árni Mathiesen var fjármálaráðherra.
Vélin kostaði 3,1 milljarða (á verðlagi 2009) sem auðvitað varð að borga eins og allt annað. Fjárheimildir voru síðan á endanum samþykktar í fjáraukalögum 2009 eins og sjá má á bls. 32 og 98.