Í nýjustu útgáfu Kjarnans er afar athyglisvert viðtal við Óðin Jónsson, fréttastjóra RÚV. Þó er það tvennt sem rétt er að skoða betur.
Óðinn bendir á að víðs vegar um heiminn hafa fjársterkir einstaklingar eða hópar keypt sig inn í hefðbundna fjölmiðla og haldið þeim gangandi án þess að rekstrarforsendur séu fyrir hendi. Ástæðan er augljós: Fjársterkir og valdamiklir aðilar vilja með eingarhaldi sínu á fjölmiðlum ná til almennings og tryggja stöðu sína í samfélaginu. Um þetta eru þekkt dæmi hér á landi, t.d. Morgunblaðið og 365 miðlar.
Óðinn nefnir einnig dæmalaus ummæli formanns fjárlaganefndar Alþingis um að RÚV verði látið gjalda fyrir fréttaflutning sinn af mönnum og málefnum. Ef ekki væri vegna þess að ummæli formannsins standa ekki ein og sér og fleiri hafa tekið undir þau og það sem kannski verra er – formenn stjórnarflokkanna hafa ekki mótmælt þeim – þá myndu svona ummæli dæma sig sjálf. En þau gera það ekki. Það er því full ástæða til að hafa áhyggjur þegar áhrifafólk í æðstu stöðum lætur slíkt frá sér fara.
Það er ekki síður hættulegt þegar stjórnmálamenn reyna að tryggja stöðu sína með því að berja fjölmiðla til hlýðni við sig og þegar auðugir einstaklingar og/eða hópar gera slíkt hið sama. Það er beinlínis hættulegt lýðræðinu.
Væri ekki tilvalið að blása til ráðstefnu um stöðu fjölmiðla á Íslandi og fá til þess erlenda sem innlenda aðila?
Því að ,,betur sjá augu en eyru“, eins og einn félagi minn sagði stundum.