Æ rest mæ keis

Guðmundur Hörður Guðmundsson kynningar- og vefstjóri hjá Háskóla Íslands virðist hafa fengið mig á heilann og skrifar um mig hvern pistilinn af öðrum. Ég hef reynt að ná samband við manninn, boðið honum upp á að ræða við mig og afla sér upplýsinga til skrifa sinna. Þó það yrði ekki nema til að hafa staðreyndir á hreinu. Hann má svo hafa hvaða skoðun á mér sem hann kýs að hafa. En hann vill ekki einhverra hluta vegna tala við mig og heldur ekki skiptast á upplýsingum með tölvupósti.
Guðmundur Hörður heldur því fram að ég gangi erinda útgerðarfélagsins Samherja í bankaráði Seðlabanka Íslands vegna rannsóknar bankans á Samherja. Tengsl mín við Samherja áttu að hafa verið þau að ég hafi „í gegnum tíðina og geri enn“ þegið há laun hjá fyrirtækinu og fyrirtækjum því tengdu. Því hljóti ég (vegna launanna) að ganga erinda fyrirtækisins. Eftir ábendingu frá mér leiðrétti hann þá rangfærslu að ég hafi „í gegnum tíðina og geri enn“ þegið há laun hjá þessum fyrirtækjum enda er það ekki þannig - því miður fyrir mig. Þar með var málflutningur hans auðvitað að engu enda voru þessi meintu tengsl mín við Samherja forsenda samsæriskenningar hans. Þar fyrir utan er rannsókn Seðlabankans á Samherja löngu lokið og málinu verið vísað til sérstaks saksóknara til áframhaldandi meðferðar. Seðlabankinn er því ekki með neina rannsókn í gagni á Samherja og þó að svo væri þá eru tengsl mín við Samherja engin og því engir hagsmunir í húfi til að verja.
Samt heldur Guðmundur Hörður áfram og heldur því nú fram að ég hafi verið skipaður í stjórn Selabankans. Sem er alrangt.
Saman dregið: 
Seðlabankinn er ekki með neina rannsókn í gangi á hendur Samherja.
Ég hef engin tengsl við Samherja.
Þó að svo væri þá skipti það engu máli þar sem það er engin rannsókn í gangi.
Ég fór eina viku veiðiferð á einu skipi Síldarvinnslunnar í sumar.
Ég sit ekki í stjórn Seðlabankans. (Guðmundur hélt þessu fram í pistli sínum í morgun en leiðrétti það svo samkvæmt ábendingu minni).

Ég geri ekki ráð fyrir að þetta breyti neinu og læt því þessu arga þrasi lokið af minni hálfu og gef sviðið eftir fyrir Guðmund Hörð Guðmundsson.