Atlagan að Ríkisútvarpinu er um margt merkileg. Fyrir það fyrsta er þetta ein harkalegasta atlaga sem gerð hefur verið að þessari merku og mikilvægu stofnun á síðar árum, ef nokkurn tímann áður. Í öðru lagi er hún ekki pólitísk að því leyti til að flokkurinn sem að henni stendur hefur ekki haft það á stefnuskrá sinni að rýra hlutverk Ríkisútvarpsins eða leggja það niður. Þvert á móti er mikilvægi Ríkisútvarpsins undirstrikað í stefnu flokksins þar sem segir að það gegni „mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi með aðhaldi og hlutlægri umfjöllun um íslenskt samfélag“ (bls. 25). Í þriðja lagi kemur þetta áhlaup á stofnunina eins og skrattinn úr sauðaleggnum, að því er virðist án raunverulegrar eða sýnilegrar ástæðu en lýtur samt sem áður út fyrir að vera ágætlega undirbúin af ráðnum hug af þeim sem bera hugmyndina fram. Þó virðist enginn vilja ræða málið. Formaður flokksins neitar að tjá sig og enginn þingmanna flokksins hefur heldur gert athugasemdir við að Ríkisútvarpið verði lagt niður. Hafa margir þeirra þó verið ólatir að tjá sig opinberlega um stefnu stjórnar sinnar. Er kannski komið hik á framsóknarflokkinn?
Það bendir allt til þess að atlagan að Ríkisútvarpinu eins og hún birtist okkur sé hvorki mistök eða slys sem rekja megi til óvarkárra ummæla formanns fjárlaganefndar, heldur um yfirlýst markmið, tekið að yfirlögðu ráði.
Af hverju segja menn það þá ekki?
Og af hverju framsóknarflokkurinn?