Alþingi samþykkti á síðasta þingi með miklum meirihluta atkvæða lög sem heimila ráðherra að koma að uppbyggingu atvinnu við Húsavík. Þau lög eru háð því að það fyrirtæki sem um ræðir hefji framkvæmdir, sem það mun ekki gera fyrr en endanlega hefur verið samið við landsvirkjun um orkuverð og fyrirtækið uppfylli að öðru leiti þær kröfur sem gerðar eru til þess og verksins. Þetta eru sem sagt heimildarlög, þ.e. að ráðherra er heimilt að beita þeim en hann þarf ekki að gera það.
Nú virðist sem svo að þessi ráðherra sjálfstæðisflokksins sé að leita leiða til að koma í veg fyrir að af þessu verki verði. Hún segir að lög um atvinnuuppbyggingu við Húsavík grafi undan almennri löggjöf um ívilnanir vegna atvinnustarfsemi. Hún nefnir þó engin dæmi um slíkt og fullyrðingar hennar um slíkt standast ekki skoðun.
Allir vita hins vegar að ráðherrann hefur átt sér vilta drauma um risaálver á Reykjanesi og heitið því að þannig fabrikka muni rísa undir hennar forystu. Við það getur hún ekki staðið þegar á reynir – sem betur fer og vill kenna öðrum um. Þá liggja Húsvíkingar vel við höggi eins og svo oft áður.
Ragnheiður Elín Árnadóttir kann með famgöngu sinni að hafa sett atvinnumál á Húsavík í uppnám. Það er full þörf á því að hún geri sér ferð norður og útskýri vel og vandlega fyrir Húsvíkingum meiningu sína og vilja til þessa verks.
Minna má það nú ekki vera.