Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengst af gefið sig út fyrir að vera annars vegar ábyrgur í ríkisfjármálum og hins vegar trúverðugur í utanríkismálum. Flokkurinn missti trúverðugleika sinn i fjármálum í Hruninu enda ber hann öðrum stjórnmálaflokkum meiri ábyrgð á þeim ósköpum. Til viðbótar komst svo upp um gríðarlega fjármála spillingu flokksins og þingmanna hans í kjölfar Hrunsins. Það traust sem flokkurinn hafði áunnið sér á þessum vettvangi gufaði upp í Hruninu og fátt sem bendir til þess að hann muni endurheimta það í bráð.
Sjálfstæðisflokkurinn náði að hanga á trúverðugleika sínum í utanríkismálum fram að því að hann myndaði ríkisstjórn með framsóknarflokknum. Eftir það hefur hann mátt þola álíka niðurlægingu á þeim vettvangi og í ríkisfjármálunum. Í báðum þessum málum er sjálfstæðisflokkurinn í gíslingu framsóknarmanna sem er á góðri leið með að einangra Ísland á alþjóðavettvangi. Það á jafnt við um utanríkispólitíkina og ríkisfjármálin.
Það athyglisverða er að nú er þetta sjálfval hjá sjálfstæðisflokknum. Hann hefur kosið að fylgja efnahags- og utanríkisstefnu án skilyrða gegn setu í ríkisstjórn. Þó átti hann annað val.
Þannig hefur eðli og inntak sjálfstæðisflokksins breyst frá því að vera leiðandi afl í utanríkis- og efnahagsmálum yfir í að vera stuðningsflokkur framsóknarmanna, fylgjandi stefnu sem sjálfstæðismönnum áður fyrr hefðu óað við að gera.
Það er ekki mikil reisn fyir því.