Blod på tanden

Samkvæmt fjárlögum 2013 eru áætluð rekstrarútgjöld ríkisins um 500 milljarðar króna – fyrir utan vexti (bls.3). Af þeim fara um 70 milljarðar (14% útgjalda) til mennta- og menningarmála og 235 milljarðar (47%) til velferðarmála, þar af 120 milljarðar (24%) til heilbrigðismála. Samtals fara því 190 milljarðar af útgjöldum ríkisins á árinu 2013 til mennta- og heilbrigðismála eða 38% allra útgjalda ársins. Ríflega 2/3 útgjalda til þessara málaflokka eru laun og launatengd gjöld. 
Þetta er ágætt að hafa í huga þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur til að skorið verði niður um 110 milljarða árlega í útgjöldum til mennta- og heilbrigðismála. Sú upphæð er nærri tvöföld útgjöld til menntamála eingöngu. Það er til viðbótar því sem þegar hefur skorið niður og flestum finnst nóg um. Þetta er hærri upphæð en skorið var niður um á öllu síðasta kjörtímabili.
Það var eitt meginverkefni ríkississtjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar að koma í veg fyrir að hugmyndir af þessu tagi næðu fram að ganga á síðasta kjörtímabili. Samskipti þeirrar ríkisstjórnar snerust um að sannfæra AGS um að fara blandaða leið tekjuöflunar og samdráttar í útgjöldum og nauðsynlegt  væri að verja velferðar- og menntakerfið í kjölfar Hrunsins. Það tókst betur en á horfðist í fyrstu og þrátt fyrir andstöðu AGS og stjórnarandstöðunnar á þeim tíma sem bauð ítrekað liðsinni sitt til frekari niðurskurðar.
Nú eru komnir til valda stjórnmálaflokkar sem lifna allir við þegar hugmyndir um frekari niðurskurð í velferðar- og menntamálum eru viðraðar. Nú skal dregið úr tekjum sem mest má vera og ráðast í duglegan niðurskurð. 
Hægriflokkarnir munu verða dyggir þjónar gamaldags, kreppudýpkandi hugmynda sem fyrri ríkisstjórn hafnaði. 
Þeir hafa fengið blod på tanden