Við hjónin renndum yfir í Hvalvatnsfjörð í góða veðrinu í dag, litum eftir berjum og gengum um. Það hefur margt fallegt verið ort um Fjörður af skiljanlegum ástæðum. Fáir hafa þó lýst andstæðunum og lífsbaráttunni í Fjörðum betur en Látra-Björg:
Fagurt er í Fjörðum
þá frelsarinn gefur veðrið blítt,
hey er grænt í görðum,
grös og heilagfiskið nýtt.
En þá veturinn að þeim tekur sveigja
veit eg enga verri sveit
um veraldar reit. —
Menn og dýr þá deyja.
„Næturljóð úr Fjörðum“ eftir Böðvar Guðmundsson þekkja flestir enda fallegur kveðskapur við frábært lag skáldsins. Margir hafa velt því fyrir sér hversvegna þriðja vers er aðeins sungið af hálfu. Því hefur verið haldið fram að þannig hafi það ekki verið í upphafi en skáldið hafi fellt síðari hlutann út af gildri ástæðu áður en ljóðið var opinberað. Verður ekki meira um það sagt hér enda sannleiksgildi sögunnar óstaðfest .
Yfir í Fjörðum allt er hljótt,
eyddur hver bær, hver þekja fallin.
Kroppar þar gras í grænni tóft
gimbill um ljósa sumarnótt.
Ókleifum fjöllum yfirskyggð
ein er þar huldufólksbyggð.
Bátur í vör með brostna rá
bíður þar sinna endaloka,
lagði hann forðum landi frá
leiðina til þín um fjörðinn blá.
Aldrei mun honum ástin mín
áleiðis róið til þín.
Fetar þar létt um fífusund
folaldið sem í vor var alið.
Aldrei ber það um óttustund
ástina mína á vinafund.
Grær yfir leiði, grær um stein,
gröfin er týnd og kirkjan brotin,
Grasrótin mjúka, græn og hrein
grær yfir huldufólksins bein.
Grær yfir allt sem áður var ,
ástin mín hvílir nú þar.