Leyndarmál forsætisráðherra

Formenn stjórnarflokkanna hafa sagt afnám gjaldeyrishafta vera eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnar hægriflokkanna. Reyndar hefur formaður sjálfstæðsflokksins dregið eitthvað í land og lýst því yfir að gjaldeyrishöft verði líklega að vera til frambúðar” að einhverju leiti. Þeir hafa hinsvegar sagt ákveðið að áætlun um afnám haftanna verði lögð fram í september. Sú áætlun mun byggjast á hugmyndum forsætisráðherra, hugmyndum sem hann vill ekki segja hverjar eru og enginn veit hvað fela í sér.
Á síðasta kjörtímabili var skipuð sérstök þverpólitísk nefnd um afnám gjaldeyrishafta. Nú má ætla að nefndin sú hafi einhverjar upplýsingar um hugmyndir forsætisráðherra og sé stjórnvöldum til ráðgjafar um afnám haftanna. Það skiptir alla landsmenn, almenning og fyrirtæki, gríðarlega miklu máli hvernig staðið verður að afnámi haftanna og því mikilvægt að upplýst verði sem fyrst um hina nýju áætlun í þeim efnum.
Það er einnig öruggt að erlendar stofnanir og alþjóðleg samtök sem láta sig efnahagsmál varða bíða eftir áætlun stjórnvalda og munu leggja mat á þær og áhrifum þeirra á íslenskt efnahagslíf.
September er næsti mánuður.