Þegjandi og hljóðalausir sjálfstæðismenn

Það var ekki hægt að misskilja Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar og einn af fjórum þingmönnum Dauðasveitar stjórnarflokkanna á RÚV í morgun: „Við framsóknarmenn höfum talað skýrt. Þjóðin hefur ekki efni á nýjum spítala í dag, það eru alveg hreinar línur."
Lög um byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss voru samþykkt á Alþingi í vor með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða gegn þrem. Allir þingmenn sjálfstæðisflokksins að einum undanskildum studdu málið, þ.m.t. formaðurinn Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherrann Kristján Þór Júlíusson. Niðurstaða áralangrar undirbúningsvinnu, innan þings sem utan, var sú að þjóðin hefði ekki efni á að viðhalda núverandi ástandi, hvorki fjárhagslega né faglega. Ríkið greiðir nú árlega nokkra milljarða aukalega í rekstur Landspítalans vegna þess hvað starfsemin er dreifð um allar koppagrundir og húsnæðið er orðið úrelt og úr sér gengið. Þess vegna væri það bæði skynsamlegt og nauðsynlegt að byggja nýtt sjúkrahús. Forsenda byggingarinnar er að hagræðingin af nýju húsnæði greiði mismuninn af óhagræðinu af því að hjakka áfram í sama farinu. Þingið var þess vegna nær samhljóða  að rétt væri að hefjast handa við bygginu á nýjum þjóðarspítala sem fyrst.
Mér vitanlega hafa engar forsendur breyst eða nokkuð komið upp á frá því lögin voru samþykkt sem réttlæta að hætt skuli við bygginguna, aðeins að „við framsóknarmenn höfum talað skýrt.“
Sjálfsagt taka sjálfstæðismenn því þegjandi og hljóðalaust.
Hitt leiðir af sjálfu sér að stjórnvöld hyggist slá af framkvæmdir við jarðgöng á milli Norðfjarðar og Eskifjarðar. Þau átti að fjármagna með tekjum af veiðigjaldi sem hægriflokkarnir afþökkuðu á sumarþinginu. Þar með er fjármögnun verksins í uppnámi og ljóst að Dauðasveitin mun ekki leggja til nýja fjárveitingu enda hennar hlutverk að skera niður og kæla hagkerfið niður umfram allt annað.
Sjálfstæðismenn taka því sjálfsagt líka þegjandi og hljóðalaust.
Eða hvað?