Ég hef einhverra hluta vegna alltaf haft ákveðnar taugar til Húsavíkur. Bærinn hefur yfir sér ákveðinn sjarma, bæjarstæðið er fallegt, hafnarsvæðið sömuleiðis og svo virðist mannlífið vera gott og fólkið skemmtilegt. Ég er sem sagt frekar svag fyrir Húsavík og sæki hann heim ef tilefni er til. Ég hef t.d. notið þess að vera á Mærudögum undanfarin ár og haft gaman af. Ég hef því bæði orðið undrandi og sár að heyra fréttir af ofdrykkju og ofbeldi, fullum fangageymslum og líkamsárásum eftir þessa annars skemmtilegu daga eins og ég upplifi þá. Hvað veldur þessu? Hvers vegna er ofdrykkja, slagsmál og fullar fangageymslur fylgifiskur fjölskylduhátíða víða um land?
Neskaupsstaður er einnig bær sem ég hef alltaf horft til með hlýhug og virðingu. Þar er árlega haldin tónlistarhátíðin Eistnaflug þar sem þungarokkið er í aðalhlutverki. Bærinn fyllist af ungu svart-leðurklæddu fólki sem virðist til alls líklegt. Ég man hins vegar ekki eftir fréttum af ofbeldi, nauðgunum eða fangelsunum af þeirri hátíð. Það kann þó að hafa farið fram hjá mér. Man einhver eftir því?
Hvað sem veldur er það algjörlega óásættanlegt að stjórnlaus drykkja og ofbeldi eyðileggi annars ágæt áform þeirra sem standa að bæjar- og fjölskyldu hátíðum.
Kannski kann Eistnaflugs fólkið ráðið við þessu?