Í fréttum RÚV var sagt frá hjónum sem glöddust mjög yfir vaxtabótum sem þau fengu frá Íslandsbanka en gleðin hafi reynst skammvinn þegar í ljós kom að ríkissjóður myndi ekki líka greiða þeim vaxtabætur af sömu vaxtagreiðslum og bankinn gerði. Vitnað er til lögmanns sem segir að það komi því út á eitt fyrir þetta fólk hvort það hafi fengið endurgreitt úr bankanum eða úr ríkissjóði. Í rauninni hafi Íslandsbanki því gert viðskiptavinum bjarnargreiða. Af fréttinni má ráða að ríkissjóður hafi komið í bakið á fólkinu og snuðað það um réttmætar vaxtabætur.
Skoðum þetta aðeins betur:
Í fyrsta lagi er ágætt að hafa það í huga að „bjarnargreiði“ er greiðasemi sem snúist hefur upp í andhverfu sína sbr. ágæta skýringu á Vísindavefnum. Samkvæmt því hafa viðskiptavinir Íslandsbanka skaðast af endurgreiðslum frá bankanum ef marka má lögmanninn. Staðreyndin er hins vegar sú að hagur viðskiptavina bankans hefur ekkert breyst, hvorki til hins verra né betra. Þeir fá sína endurgreiðslu eins og til var ætlast og hugsanlega einhverjir jafnvel meira en þeir hefðu annars fengið úr ríkissjóði. Hagur ríkissjóðs hefur hins vegar batnað sem nemur greiðslum bankans og því má auðveldlega færa rök fyrir því að við, eigendur ríkissjóðs, höfum öll hagnast örlítið á vaxtabótum bankans. Íslandsbanki hefur ekkert skaðast enda var það meðvituð ákvörðun hans að greiða vaxtabæturnar út og ráð fyrir því gert í rekstri hans. Það hefur því enginn orðið fyrir tjóni og enginn verið snuðaður. Nema mönnum finnist meira virði í peningum úr ríkissjóði en frá bönkunum.
Spurningin er hins vegar hvort Íslandsbanki muni í framhaldinu hætta að endurgreiða viðskiptavinum sínum vexti og láta ríkissjóði það einum eftir með tilheyrandi kostnaði fyrir okkur öll.
Það væri gaman ef einhver myndi spyrja bankann að því.