Sagt var frá skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga 2012 í fréttum RÚV í gær. Í fréttinni kom fram að nokkrar stofnanir hafi farið fram úr áætlun og var í því sambandi aðallega vísað til háskóla, framhaldsskóla, heilbrigðisstofnana og lögregluumdæma. Allt satt og rétt.
Skýrslur sem þessar sýna annars vegar stöðuna á hverjum tíma fyrir sig og um leið þá þróun sem hefur átt sér stað í viðkomandi málum. Ef litið er til fyrri skýrslna Ríkisendurskoðunar um sama mál kemur í ljós að gríðarlegur árangur hefur náðst við stjórn ríkisfjármála síðustu fjögur árin þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Um þetta vitna skýrslur Ríkisendurskoðunar um árið 2005 (bls. 5-6), 2006 (bls. 5) og 2007-2008 (bls. 5-6), þar sem farið er sterkum orðum um ástandið á þeim tímum. Ekki allt falleg lesning. Halli á ríkissjóði hefur stórlega minnkað frá Hruni og tekjur aukist að sama skapi. Af þeim ríflega 200 milljörðum sem tekist hefur að minnka hallann um er hlutur nýrra tekna og niðurskurðar nánast jafn. Áætlanagerð hefur öll batnað og frávik frá fjárlögum aldrei verið minni. Síðustu þrjú árin fyrir Hrun var farið 75 mia.kr. fram úr fjárlögum, eða 6-8% á hverju einasta ári. Þannig var það reyndar líka mörg ár þar á undan. Slíkt agaleysi í fjármálum þjóðar er óþekkt í öðrum löndum og er best lýst sem stjórnleysi. Um þetta má lesa m.a. í áliti fjárlaganefndar á ríkisreikningi 2009 og 2010, og fjáraukalaögum 2012 (bls. 2) svo eitthvað sé tínt til.
Þetta er ekki dregið fram hér í þeim tilgangi að halda því fram að nú sé allt í himnalagi og óþarfi að hafa áhyggjur. Þvert á móti. Það er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur af stöðu ríkissjóðs og hvernig honum er stýrt. Ekki síst núna þegar stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum rifið tugmilljarða gat á fjárlög ársins.
En það er full ástæða til að vekja athygli á því að þróunin síðustu fjögur árin var öll í rétta átt og í stærri skrefum en áður hefur þekkst hér á landi. Það er því afar mikilvægt að halda áfram þeim góða árangri sem þáverandi stjórnvöld og ekki síst samstíga fjárlaganefnd síðasta kjörtímabils náði á þessum vettvangi, sem er í rauninni það sem Ríkisendurskoðun er að benda á í skýrslum sínum.
Annars fer þetta allt aftur fjandans til.