Línurnar teknar að skýrast

Nú hefur formaður sérsveitar úrvalsþingmanna stjórnarflokkanna, Dauðasveitarinnar svokölluðu, tilkynnt  að ekki verði um flatan niðurskurð að ræða á fjárlögum næsta árs. Þetta er þá stefnubreyting frá því sem formaður sjálfstæðisflokksins, fjármála- og efnahagsráðherrann Bjarni Benediktsson hafði áður boðað að yrði.
Gefum okkur að það fari svo að ráðherrann verði undir í þessu máli og ekki verði um flatan niðurskurð að ræða og ekkert í heilbrigðis- og velferðarmálum. Þá lítur dæmið einhvern veginn svona út:
Útgjöld á fjárlögum ársins í ár eru um 500 mia.kr. – fyrir utan vexti. Útgjöld til heilbrigðis- og velferðarmála eru rétt tæpur helmingur heildarútgjalda ríkisins. Miðað við orð formanns Dauðasveitarinnar verður engin aðahaldskrafa gerð á þennan hluta ríkisútgjaldanna. Það þýðir þá að það á að taka allan kostnaðinn af lækkun veiðigjalda, lækkun auðlegðarskatts, lækkun VSK á ferðaþjónustuna og fleira, af hinum helmingi útgjaldanna. Þar mun sérsveitin hitta fyrir menntamálin, menningarmálin, löggæsluna, framkvæmdir ríkisins sem ásamt fleiru mun þá fá rækilega á kjaftinn á fjárlögum næsta árs. Í þessum hluta eru menntamálin stærst og þar er launakostnaður stærsti þátturinn. Miðað við nýjasta upplegg sérsveitar stjórnarflokkanna í ríkisfjármálum er því ljóst í hvað stefnir. Stórfelldar uppsagnir í menntamálum, framhaldsskólum og háskólum auk löggæslu og menningarmálum. Á móti mun væntanlega vera boðið upp á sömu þjónustu fyrir minna fé úr ríkissjóði, eins og forsætisráðherrann lét hafa eftir sér. Það þýðir aðeins eitt – einkavæðing menntakerfisins þar sem nemendur og fjölskyldur þeirra munu þurfa að kaupa aðgang að skólum.
Það er nefnilega ekkert nýtt undir sólinni.