Það kemur engum á óvart að forseti Íslands hafi ákveðið að staðfesta frumvarp ríkisstjórnar sinnar um lækkun veiðigjalds og afnáms auðlindarentu í sjávarútvegi. Það hefði hann hinsvegar átt að gera án málalenginga frekar en með útúrsnúningum eins og hann kaus að gera í dag. Árlegt tekjutap upp á 8-10 mia.kr. er vissulega gríðarlega vond afleiðing af ákvörðun forsetans, svo alvarleg að ríkisstjórnin hefur sett á fót sérsveit úrvalsþingmanna, sk. Dauðasveit, til að bregðast við tekjutapinu. Foringi hópsins hefur þegar boðað uppsagnir og samdrátt í ríkisrekstrinum af þessum sökum. Með ákvörðun sinni í dag tók forsetinn hinsvegar undir þá pólitísku sýn ríkisstjórnar sinnar að þjóðin skuli ekki eiga kröfu á tilkalli til réttláts hlutar í arðinum sem til verður af hennar eigin auðlind, heldur skuli það verða ákvörðun hans eigin ríkisstjórnar hverju sinni. Í grunni snýst lagasetningin um raunverulegt tilkall þjóðarinnar til réttláts arðs af auðlind sinni, fast hlutfall af arðinum sem til verður við nýtingu hennar í stað þess að gjaldið verði háð geðþótta stjórnmálamanna hverju sinni. Hér er því ekki um skattlagningu að ræða eins og forsetinn hélt vísvitandi ranglega fram í dag, heldur um skiptingu á tekjum sem til verða við nýtingu sameiginlegrar auðlindar.
Á þessum forsendum var ákvörðun forsetans í dag röng fyrir þjóðina en rétt fyrir ríkisstjórn hans og hennar umbjóðendur.