Hlýðin þjóð í hlekkjum

Icesave-málið er í hópi verstu mála Hrunsins. Það hefur kostað miklar fórnir og enn er ekki útséð með hvað endanlegur reikningur verður hár. Þeir sem hafa lagt mest á sig við að leysa úr þessum ósóma hafa verið úthrópaðir sem svikarar og sakaðir um að ganga erinda erlendra ríkja. Hæst hrópuðu þeir þá sem nú stýra landinu og fylgismenn þeirra.
Nú liggur fyrir niðurstaða í allt öðru máli margfalt dýrara fyrir þjóðina og mun ljótara. Það á rætur sínar í sama jarðveg og Icesave-málið. En þá þagna þeir sem áður höfðu sem hæst. Kannski vegna þess að þeir eiga erfiðara með að ljúga sig frá ábyrgð að þessu sinni. Nú er ekki talað um svik eða landráð. Nú tala þeir um að allir verði að læra af reynslunni og allir beri ábyrgðina með þeim. Þeir vita sem er að við, þjóðin, munum borga upp í topp óstjórn fyrri ára. Möglunarlaust.
Eins og Seðlabankann.
Eins og Icesave.
Og Íbúðalánasjóð.
Allt greitt. Upp í topp. Og allt fyrirgefið. Eins og alltaf.
Vegna þess að við erum hlýðin þjóð.