Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um orsök og aðdraganda Hrunsins haustið 2008 er efnahagsstefna sjálfstæðisflokksins og afleiðing hennar rakin í alls níu bindum. Auk þess er í skýrslunni farið ágætlega yfir innstu iður flokksins, hugmyndafræði hans, tengsl við viðskiptalífið og upplýst um nánast allar tegundir af pólitískri spillingu. Nú hefur sambærileg skýrsla verið gefin út um framsóknarflokkinn þar sem í fjórum bindum er upplýst með betri hætti en áður hefur verið gert hvernig flokkurinn leit á Íbúðalánasjóð sem innanflokksmál. Í skýrslunni er farið yfir skelfilegar afleiðingar af stefnu framsóknarflokksins í efnahags- og húsnæðismálum auk þess sem ágæt innsýn er gefin í myrkrakompur flokksins, spillingu og misnotkun á almannafé. Báðar þessar skýrslur eru þörf uppflettirit um sögu og samstarf þessara tveggja flokka og afleiðingar gerða þeirra. Báðar munu gleymast fljótt.Við verðum bara að vona að útkoma skýrslunnar um framsóknarflokkinn hafi ekki neinar afleiðingar í för með sér, frekar en varð með skýrsluna um sjálfstæðisflokkinn. Allra síst fyrir þessa tvo flokka. Við skulum líka vona að menn falli ekki í þá freistni að leita sökudólga. Helst af öllu skulum við þó biðja þess að ekki verði nokkur maður látinn sæta ábyrgð. Það væri ljótur leikur og ekkert annað en pólitískar ofsóknir ef það yrði gert. Þetta er hvort sem er búið og gert og tími til kominn að líta til framtíðar. Með þessum sömu flokkum og sömu stefnu.
Nema hvað?