Þegar tilrauninni til að gera Ísland að efnahagslegu stórveldi lauk með Hruni haustið 2008, var því spáð að atvinnuleysi á Íslandi gæti farið í 20% jafnvel meira, jafnvel að slegið yrði heimsmet í atvinnuleysi hér á landi. Það gerðist aldrei sem betur fer. Atvinnuleysið fór mest í 9,3% í febrúar 2010 og hefur síðan farið lækkandi jafnt og þétt og er nú ríflega 5%. Það þýðir að 95% fólks er með atvinnu sem er hæsta hlutfall á vinnumarkaðinum í Evrópu. Ólíkt því sem gert hefur verið í öðrum löndum hafa íslensk stjórnvöld stutt vel við bakið á atvinnulífinu, sérstaklega þar sem það getur vaxið hratt og sóknarfærin hafa blasað við. Stjórnvöld blésu þannig til sóknar í ferðaþjónustunni í samstarfi við greinina sem skilað hefur miklum árangri. Sömuleiðis hefur verið stutt við nýsköpun og tengdar greinar með ýmsum hætti. Allt hefur þetta skilað sér í örum vexti og fjölgun starfa í þessum greinum sem síðan hefur haft jákvæð hliðaráhrif á aðra atvinnustarfsemi, þjónustu og fleira. Mikil og stór verkefni eru ýmist farin af stað víða um land eða eru í startholunum sem munu auka enn frekar atvinnuþátttöku í landinu og því ekki hægt að halda öðru fram en bjartara sé yfir atvinnumálum á Íslandi, bjartara en oft hefur verið.
Þeir sem tala fyrir auknum niðurskurði, lækkun skatta og samdrætti í útgjöldum til samneyslunnar þurfa að svara því hvað það muni kosta mörg störf, hvað margir verði atvinnulausir og hvað það muni kosta samfélagið til lengri tíma bæði í fjármunum og breyttri þjóðfélagsgerð.
Er ekki rétt að spyrja að því?