Skuldatryggingarálagið á Íslandi segir til um álit alþjóðlegra lánamarkaða á Íslandi sem lántakanda. Þetta er nokkurs konar mat á fjárhagslegu trausti. Fyrir fjórum árum var skuldatryggingarálagið á Ísland um 1.000 stig (eitt þúsund stig) en álagið fór hæst í 1.100 stig veturinn 2008/2009. 100 punkta álag þýðir að lánveitendur telja sig þurfa að leggja 1% álag á önnur lánakjör til að verja lánveitingu sína. Þúsund stiga álag þýðir þá að lánveitendur telja sig ekki geta veitt Íslendingum lán nema með 10% vaxtaálagi ofan á önnur vaxtakjör. Lánakjör ríkisins hafa áhrif á lánakjör fyrirtækja sem þurfa að fá lán á erlendum lánamörkuðum, oftast nær á verri kjörum en ríkið fær. Um og yfir þúsund stiga álag voru því auðvitað afarkostir sem ekki var hægt að búa við til lengri tíma.
Í dag er skuldatryggingarálagið komið niður í 155 stig sem þýðir að vaxtaálagið á Ísland er 1,55% og er enn að lækka. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess fyrir ríkissjóð, fyrirtækin í landinu og heimilin í landinu.
Síðast en ekki síst er þessi þróun á skuldatryggingarálagi Íslands ótvíræður vitnisburður alþjóðasamfélagsins á þeim árangri sem náðst hefur í efnahagsmálum þjóðaðarinnar á síðustu fjórum árum og það traust sem Ísland hefur á alþjóðlegum lánamörkuðum.
Skiptir þar engu hvað íslenskir hægrimenn segja um annað.