Baráttan um yfirráð yfir sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, sem hefur staðið yfir meira og minna allt kjörtímabilið (og lengur) er nú að ná hámarki á Alþingi. REI, Magma, Geysir Green Energy og fleira slíkt sameinar flest það versta í þeirri baráttu og sýnir betur en flest annað hvaða pólitísku öfl það eru sem standa ætíð vörð um einkahagsmuni frekar en almannahag. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið deilt um yfirráð yfir auðlindum sjávar, fiskistofnunum, orkuauðlindunum og nú síðast eru að hefjast pólitísk átök um vatnið. Já, vatnið!
Fyrir þinginu liggur nú frumvarp sem sameinar í eina löggjöf yfirborðsvatn og grunnvatn og samræmir reglur um vatnsréttindi í anda gildandi vatnalaga. Ef frumvarpið verður að lögum mun það ekki hafa bein áhrif á eignarrétt landeigenda frá því sem er í gildandi lögum, hvorki að því er varðar grunnvatn né yfirborðsvatn. Réttur landeiganda er skilgreindur sem réttur til hagnýtingar og ráðstöfunar með þeim takmörkunum sem í lögum væru sett eða sem leiddu af tilliti til réttinda annarra. Jafnframt hafa eignarráðum landeiganda til grunnvatns verið settar viðamiklar takmarkanir í auðlindalögum.
Og þá gerist það óumflýjanlega. Hagsmunagæslumenn einka- og eignaréttarins rísa upp á afturlappirnar sínu fólki til varnar á kostnað almannahagsmuna. Framsóknarmenn þar í fararbroddi eins og svo oft áður.
Víglínan í baráttunni um auðlindir landsins færist aldrei til. Sú lína var dregin í sandinn fyrir áratugum.
Orrustan um auðlindir Íslands stendur nú sem hæst á öllum vígstöðvum.