Framsóknarflokkurinn kynnti í dag tillögur sínar um auðlindaákvæði nýrrar stjórnarskrár. Þar segir m.a. þetta: „Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.“
Þessi tillaga er afrituð beint úr tillögu Auðlindanefndar frá árinu 2000 sem laut forystu Jóhannesar Nordal, fyrrverandi Seðlabankastjóra.
Á mannamáli þýðir þetta að framsóknarflokkurinn gerir það að tillögu sinni að nýtingarréttur á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar myndi stjórnarskrárbundinn eignarrétt þeirra sem fá að nýta auðlindirnar. Þetta á við um fallvötnin, jarðvarmann og fiskistofnana, svo dæmi séu tekin. Framsóknarflokkurinn vill sem sagt stjórnarskrárbinda eignarrétt útgerða og orkufyrirtækja á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Það þarf varla að taka það fram að þessi tillaga þingmanna framsóknarflokksins stangast algjörlega á við nýlega samþykkt á flokksþings framsóknarmanna (bls. 8). Hingað til hefur enginn stjórnmálaflokkur vogað sér að koma jafn grímulaus fram og framsóknarflokkurinn gerir í þessu máli. Ólíklegt má telja að nokkur annar flokkur muni styðja þessa tillögu, ekki einu sinni sjálfstæðisflokkurinn sem hefur hingað til ekki hefur vogað sér að tala með þessum hætti.
Með þessu afmunstraði þingflokkur framsóknarflokksins sig sem viðræðuhæfur hópur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Það er ekki einu sinni hægt að nálgast flokkinn með töngum út frá þessari dæmalausu tillögu hans.
Framsóknarflokkurinn er genginn í sín pólitísku björg.