Það eru góð lög sem kveða á um að stjórnmálamönnum beri að upplýsa um hvað barátta þeirra fyrir þingsæti kostaði og hvernig hún var fjármögnuð. Sömuleiðis og ekki síður eru það góðar reglur sem skylda þingmenn til að upplýsa um fjárhagslega hagsmuni sína á meðan þeir gegna þingmennsku. Það var látið viðgangast allt of lengi að frambjóðendur og þingmenn leyndu almenningi um tengsl sín við fjárhagslegt bakland sitt og hverjir það voru sem kostuðu þá til þings. Sumt af því hefur reyndar enn ekki verið upplýst að fullu einhverra hluta vegna. Ógagnsær fjárhagslegur stuðningur við stjórnmálaflokka vekur skiljanlega upp tortryggni og vangaveltur um spillingu. Óeðlileg tengsl þingmanna við styrktaraðila þeirra, t.d. vegna hárra framlaga eða leyndar um hverjir þeir aðilar eru fara býsna nálægt því að geta flokkast sem spilling, eins og dæmi eru um.
Það er hlutverk almennings í landinu að sjá til þess að þeir sem kosnir hafa verið á þing gangi ekki erinda þeirra sem greiddu kostnað af þingsæti þeirra heldur taki almannahagsmuni framar öðru.
Líka þeirra sem hafa ekki enn skilað gögnum um framboð sín.