Tímabundið rask á tilverunni

Sagan segir okkur að vinstri flokkar á Íslandi  séu yfirleitt ekki kosnir til valda fyrr en þjóðarskútunni hefur verið siglt í strand. Þeirra hlutverk hefur því oftar en ekki verið að lagfæra og bæta það sem aflaga fór hjá öðrum. Þessir aðrir eru nánast án undantekninga sjálfstæðis- og framsóknarflokkurinn sem hefur einhvern veginn aldrei heppnast að stjórna landinu svo vel hafi farið. Aldrei þó sem á árabilinu 1995 – 2007 þegar lagður var traustur grunnur að stærstu hagstjórnarmistökum lýðveldissögunnar  sem eiga eftir að hafa verulega neikvæð áhrif á lífskjörin í landinu næstu tvo til þrjá áratugi. Margir líta svo á að nú muni sagan endurtaka sig hvað þetta varðar eins og svo oft áður, sjálfstæðis- og framsóknarflokkurinn muni  á vordögum setjast aftur að í stjórnarráðinu sem þeir líta á sitt annað heimili og taki enn á ný til við sína fyrri pólitísku iðju sem svo aftur leiðir okkur í ógöngur. Rétt eins og um einhvers konar  náttúrulögmál sé að ræða, hringrás lífsins sem enginn fær breytt.

Ábyrgð

Vinstri græn héldu landsfund sinn um helgina. Þar fór landsfundarfólk rækilega yfir málefnastöðu flokksins, skerpti á stefnunni og setti ný markmið inn í komandi kosningabaráttu. Við komum nú fram með heilsteypta stefnu í efnahagsmálum sem tekur mið  af  því að fjármálum þjóðarinnar sé hagað með sambærilegum hætti og gerist í öðrum löndum. Að verðbólga sé ekki hærri en annars staðar gerist, vextir og skuldsetning sömuleiðis. Allt fór þetta rækilega úr böndunum í aðdraganda Hrunsins með afleiðingum sem við öll þekkjum. Vinstri græn hafa aldrei stundað yfirboð eða lýðskrum af því tagi sem aðrir flokkar hafa gert. Því var aldrei lofað að hægt væri að komast í gegnum Hrunið án erfiðleika og óánægju enda annað útilokað. Þjóðin, við öll, áttum og erum auðvitað reið yfir því hvernig farið var með okkur í aðdraganda Hrunsins og megum heldur aldrei  gleyma því sem þá gerðist.

Kusk á hvítflibbann

Íslendingar eiga ekki að sætta sig við neitt minna en að búa við sambærileg lífskjör og aðrar þjóðir búa við. Hvers vegna ætti annað að vera? Þess vegna megum við ekki líta svo á að það sé allt að því óumflýjanlegt að sagan endurtaki sig aftur og aftur og við lendum reglulega í efnahagserfiðleikum, gengisfalli, óðaverðbólgu og okurvöxtum. Við megum ekki heldur gangast við því að hægri flokkarnir líti á það sem sjálfsagðan hlut að taka aftur við völdum í hvert skipti sem búið er að lagfæra skemmdirnar sem þeir vinna á samfélaginu. Rétt eins og vera þeirra utan stjórnarráðsins hafi verið tímabundið rask á tilveru þeirra og kjósendur muni svo bursta kuskið af hvítflibbanum með atkvæðaseðlum vorsins.

Þannig þarf það ekki að vera frekar en við viljum.