Klikkun Magnúsar Halldórssonar

Skrif Magnúsar Halldórssonar viðskiptafréttastjóra Stöðvar 2 og Vísis í gær hafa skiljanlega vakið mikla athygli. Þar gagnrýnir Magnús óeðlileg afskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af fréttaflutningi og störfum fréttamanna 365 miðla. Ekki síður hafa ótrúleg viðbrögð forstjóra 365 miðla vakið athygli þar sem hann segir skrif Magnúsar vera árás á fyrirtækið og gefur jafnframt í skyn að Magnús eigi við sálræna erfiðleika að stríða. Það er þekkt leið þeirra sem vilja ráða og drottna að segja gagnrýnendur sína vera andlega vanheila einstaklinga sem ekki hvorki er sjálfrátt eða mark á  takandi. Afstaða þeirra til drottnarans sé því sprottin af einhvers konar klikkun sem allt viti borið fólk myndi aldrei láta sér detta í hug að gera. Klikkun Magnúsar Halldórssonar er sú að gagnrýna afskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af fréttaflutningi 365 miðla. Heilbrigt fólk gagnrýnir ekki svoleiðis mann.

Eða hvað?

Fréttamenn á Íslandi hafa oft starfað við undarlegar aðstæður og verið beittir andlýðræðislegu ofbeldi í störfum sínum. Þeir hafa mátt þola yfirgang eigenda fjölmiðla eða hótanir þeirra sem fjallað er um hverju sinni. Sumir fréttamenn hafa efalaust bognað undan slíkum hótunum á meðan aðrir hafa staðið þær af sér með reisn.

Kannski voru starfsskilyrði fréttamanna tryggust á gömlu flokksblöðunum fyrir margt löngu. Línurnar voru þá skýrar, allir vissu hvar þeir áttu að gera og lesendur gengu út frá því sömuleiðis.

Síðast þegar fjölmiðli var breytt í slíkt flokksmálgagn kostaði það nauðsynlegar pólitískar hreinsanir svo miðillinn yrði trúverðugur í sínu nýja hlutverki. Eftir því sem ég best veit var ekki gert neitt sérstakt veður út af því.

Og er ekki enn gert.