Ég hef ákveðið að gefa kost á mér sem varaformaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á landsfundi flokksins sem haldinn verður um næstu helgi og leggja þannig áfram fram krafta mína í þágu þess málstaðar sem flokkurinn stendur fyrir.
Ég hef tekið þátt í störfum flokksins frá stofnun hans og gegnt mörgum trúnaðarstörfum á hans vegum jafnt á sveitarstjórnarstiginu sem og á landsvísu. Frá því ég var kjörinn á þing vorið 2009 hefur þingflokkurinn falið mér að vera talsmaður sinn í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar á Alþingi og takast þar á við þau gríðarlega þungu verkefni sem frjálshyggjutilraun áranna þar á undan skildi eftir sig. Ég hef setið í fjárlaganefnd þingsins frá upphafi kjörtímabils, fyrst sem varaformaður og síðan sem formaður nefndarinnar. Ég hef sömuleiðis á þessu tímabili verið formaður samgöngunefndar þingsins og átt sæti í atvinnuveganefndum þess.
Kjörtímabilið sem nú er að enda hefur fyrst og síðast snúið að því að reisa Ísland við eftir hrun fjármálakerfisins og um leið að skapa grunn að betra og réttlátara samfélagi en leiddi til hrunsins haustið 2008. Þar hefur margt tekist vel og gengið betur en á horfðist í fyrstu þó langt sé frá því að við sem þjóð séum laus undan öllum þeim erfiðleikum sem efnahagshrunið kallaði yfir okkur. Það eru mörg erfið verkefni framundan í íslensku samfélagi sem mikilvægt er að verði leyst á þeim grunni sem lagður hefur verið á síðustu fjórum árum. Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur það erindi í íslenskum stjórnmálum að efla og tryggja félagslega og efnahagslega velferð landsmanna allra og standa vörð um umhverfi og náttúru landsins. Ísland mun ekki ná því að vera það sjálfbæra velferðarsamfélag sem við viljum öll búa í án Vinstri grænna.
Ég þakka þeim fjölmörgu aðilum sem hafa hvatt mig til að gefa kost á mér í embætti varaformanns. Allar forsendur eru fyrir því að Vinstri græn nái góðum árangri í komandi kosningum og vil ég leggja mitt af mörkum til þess að svo verði.