Skuldir íslenskra heimila jukust gríðarlega í aðdraganda Hrunsins og náðu hámarki á fyrri hluta árs 2009 eins og sjá má á línuritinu (á föstu verðlagi). Reyndar var það svo að íslensk heimili voru fyrir Hrun ein þau allra skuldugustu sem fyrir fundust á byggðu bóli og illa undirbúin fyrir samdrátt, hvað þá Hrun af þeirri stærðargráðu sem hér varð haustið 2008. Síðan hafa skuldir heimilanna lækkað og eru nú á svipuðu róli og þær voru 2007 og fara lækkandi.
Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar fór nýjar leiðir í viðbrögðum við Hruninu gagnvart heimilunum í landinu. Íslenska leiðin, hefur það verið kallað og vakið athygli um allan heim. Sú leið fólst í því að hlífa heimilum með lágar tekjur og leggja auknar byrðar á herðar þeim sem hafa úr meiru að moða auk þess að ráðstafa útgjöldum með öðrum hætti en gert hafði verið. Skattbyrði 60% heimila á landinu er nú lægri en hún var árið 2007 á meðan auknir skattar hafa verið lagðir á þau 40% sem eru ofar í tekjuskalanum. Niðurgreiðslur á vaxtagjöldum af íbúðalánum voru stórauknar og nema nú nærri 30% á móti rétt um 12% árið 2006 í miðju góðærinu, þegar skuldasöfnunin stóð sem hæst. Með margskonar félagslegum aðgerðum hefur tekist að draga úr fátækt sem náði hámarki á árinum 2005-2006 en var þá þaggað niður af stjórnvöldum og liðsmönnum þeirra innan fræðasamfélagsins. Atvinnuleysi hér á landi er nú eitt það minnsta í Evrópu og hagvöxtur einn sá mesti.
Það eru margar þjóðir í heiminum sem vildu skipta á stöðu sinni við Ísland. Það var ekki þannig fyrir fjórum árum.
Það er þó langt frá því að við séum laus úr viðjum kreppunnar og þeirra stórkostlegu efnahagslegu mistaka sem gerð voru hér á landi. Áhrif Hrunsins munu vara í áratugi og rýra lífskjör almennings, heimila og fyrirtækja.
En við erum svo sannarlega á réttri leið þó andstæðingar okkar haldi öðru fram.
Það þýðir ekkert að neita staðreyndum.