Í kjölfar dóms í Icesave-málinu fylltust liðsmenn framsóknar- og sjálfstæðisflokksins ofsakæti yfir því að íslenskir skattgreiðendur, við og börnin okkar, þurfa vonandi ekki að borga meira en ca. 250 milljarða króna vegna falls Landsbankans. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort sú upphæð verður hærri. Það var skálað í dýrustu vínum og sungnir gleðisöngvar á krám bæjarins. Ölvaðir af gleði lögðu þeir svo af stað með vantraustsyfirlýsingu á ríkisstjórnina sem þeir kenna um allar ófarir þjóðarinnar. Rætt var um ráðherrastóla og verkaskiptingu milli flokkanna.
En svo snöggrann af þeim og pólitískir timburmenn gengu glaðir til verka sinna. Forystumenn framsóknar- og sjálfstæðislokksins hafa ekki enn áttað sig á því að nýir tímar hafa runnið upp í íslenskum stjórnmálum. Það þykir ekki lengur sjálfsagt að fella ríkisstjórn jafnvel þótt það sé í boði. Þingmenn utan stjórnarliða neituðu að vera með í valdabrölti gömlu flokkanna. Þeir tóku málefnin og þjóðarhag fram yfir völd og hagsmunagæslu og staðfestu þannig að ný stjórnmálamenning hefur tekið við af þeirri sem dó haustið 2008. Meirihluti þingsins hefur þannig formlega ákveðið að setja gömlu úreltu vinnubrögðin til hliðar og fara nýjar leiðir við stjórn landsins.
Það tók því enginn undir með gömlu flokkunum. Þeir hafa málað sig út í horn og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þeir eru orðnir að pólitískum fornminjum.
Gömlu valdaflokkunum til skelfingar standa þeir nú frammi fyrir því að geta ekki einu sinni fellt minnihlutastjórn. Er það ekki ígildi þess að hafa fallið á eigin vantrausti?
Gleðin hefur snúist í martröð.