Á móti lögum um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum

Alþingi samþykkti lög um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum ef til þess kæmi að þeir yrðu seldir einhverntímann. Ríkið (þjóðin) á að stærstum hluta Landsbanka Íslands, nokkra sparisjóði og svo 13% hlut í Arion og 5% hlut í Íslandsbanka.

Í nýju lögum er nú kveðið skýrt á um hvernig standa skuli að sölu þessara eignarhluta. Í fyrsta lagi þarf Bankasýsla ríkisins (sem fer með eignarhlutina) að gera tillögu til fjármálaráðherra um söluna. Fallist ráðherra á tillögu Bankasýslunnar er málinu vísað til tveggja þingnefnda til umfjöllunar og til Seðlabankans sem leggur mat á söluna m.a. með hliðsjón af áhrifum á efnahag landsins, jafnræði kaupenda og fleira. Síðast en ekki síst þá þarf að vera heimild í fjárlögum til að selja eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum – nema hvað.

Nýju lögin heimila því ekki sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, heldur segja til um hvernig skuli standa að sölu ef til hennar kemur.

Engin lög voru til um hvernig skuli standa að sölu á þessum hlutum þegar þeir voru einkavæddir á sínum tíma. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hvernig það fór á endanum.

Það mætti því ætla að breið samstaða væri um að setja nokkuð ströng skilyrði fyrir því hvernig ríkið seldi eignarhluti sína. En það er öðru nær. Sjálfstæðisflokkurinn lagðist gegn samþykkt laganna af fullum þunga og beitti sér af hörku gegn samþykkt þeirra fram á síðustu stundu. Þeir sem hafa áhuga á að heyra málflutning þeirra geta hlustað á upptökur frá umræðunum hér.

Hversvegna telja sjálfstæðsmenn ekki ástæðu til að setja leikreglur um hvernig selja eigi hluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum? Eru þeir orðnir svo öruggir með sig í aðdraganda kosninga að þeir eru tilbúnir að endurtaka leikinn frá því síðast og afhenda þá vinum sínum og félögum aftur til ráðstöfunar? Fer það í taugarnar á þeim að þurfa að lúta einhverju lagaverki við ráðstöfun ríkiseigna sem þeir hafa litið á sem sínar eignir hingað til?

Þetta eru spurningar sem kjósendur eiga að spyrja fyrir kosningar.