Það er fullkomlega fáránlegt sem fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í Vafningsmálinu að hinir seku hafi það sér til málsbóta að þeir hafa með gerðum sínum verið að verja hagsmuni Glitnis og íslenska fjármálakerfisins. Þvert á móti þá voru þeir að reyna að leyna því að Glitnir var fallinn á þessum tíma og þar með allt íslenska fjármálakerfið, eins og það er kallað. Fram í október það sama ár var íslensku þjóðinni talið í trú um að allt væri í stakasta lagi, stjórnmálamenn lugu hver um annan þveran um ágæti fjármálakerfisins og gagnrýnendum var bent á að fara í endurmenntun. Um þetta fjallaði ég m.a. um í færslu hér á síðunni sl. vor ásamt öðru sem gekk á í íslensku samfélagi í febrúar 2008 og hefur haft gríðarleg áhrif á lífið í landi og lífskjör okkar allra.
Það er í sjálfu sér rétt að það er mikilvægara að sakfellt hafi verið í Vafningsmálinu en hver refsingin er.
En það er rugl að halda því fram að hinir seku Glitnismenn hafi haft góðan ásetning í huga með gerðum sínum.