Sterk staða sjávarútvegsins

Í hagtíðindum Hagstofunnar sem kom út í morgun eru birtar hagtölur sjávarútvegsins, veiða og vinnslu, vegna ársins 2011. Þar kemur fram að hagur sjávarútvegsins hefur aldrei verið betri en á því ári og eykst verulega á milli ára. Samkvæmt því sem þar kemur fram var hreinn hagnaður í sjávarútvegi 22,6% árið 2011 samanborið við 19,8% árið áður og EBIDTA fer úr 28,9% í 30% á sama tíma.

Þessar upplýsingar eru algjörlega á skjön við umræðuna eins og hún hefur verið í samfélaginu um sjávarútveginn. Þar er því gjarnan haldið fram að sjávarútvegurinn standi höllum fæti og sé jafnvel við að hrynja. Þetta heyrir maður gjarnan í þingsal og ber vitni um lítinn skilning á stöðu þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Staðreyndirnar tala hinsvegar sínu máli, sem betur fer þó það dugi nú ekki alltaf til.