Fólk mótmælir til að lýsa yfir óánægju sinni með stöðu mála eða tiltekin atburð. Um þetta eru fjölmörg dæmi hér á landi á undanförnum árum enda full ástæða til þess.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins einu sinni verið utan stjórnarráðsins í heilt kjörtímabil frá lýðveldisstofnun. Hann stjórnaði landinu af hörku síðustu 18 árin fyrir Hrun og ber höfuðábyrgð á þeim pólitísku mistökum sem gerð voru og leiddu á endanum til gríðarlega erfiðleika fyrir þjóðina. Aðeins einn þingmaður Flokksins hefur viðurkennt ábyrgð sína og beðist afsökunar, aðrir þverneita. Einn hefur verið dæmdur sekur um pólitísk afglöp og hirðuleysi í starfi sínum sem ráðherra. Aðrir hafa komist hjá dómi. Einn þeirra situr á þingi í skjóli lögfræðiálits. Einn bað Flokkinn afsökunar en lét það eiga sig að óska eftir fyrirgefningu þjóðarinnar. Einhverjir hafa neitað að upplýsa um hverjir styrktu þá til þings með fjárframlögum. Við nánari skoðun reyndis Flokkurinn sjálfur gegnsýrður af spillingu og hagsmunir hans nátengdir hagsmunum viðskiptalífsins, reyndar svo mjög að erfitt var að greina á milli Flokksins og hagsmunaaðila. Um þetta hefur verið skrifuð löng og ítarlega skýrsla af hálfu Alþingis og víða má finna ágætar samantektir um sögu Flokksins, t.d. hér.
Þingmenn Flokksins hafa á yfirstandnandi kjörtímabili lagt sig alla fram við að hindra framgang þingstarfa. Þeir hafa margsinnis tekið þingið í gíslingu og þannig reynt að koma í veg fyrir að nauðsynleg mál nái fram að ganga. Þannig hafa þeir oftar en einu sinni tafið vinnu við nauðsynlegar umbætur í stjórnkerfinu, allt frá því smæsta til þess stærsta, sjálfa stjórnarskrá Íslands.
Nú síðast hafa þeir tekið sjálf fjárlög landsins í málþóf. Það á sér engin fordæmi í sögu þjóðarinnar. Slík framganga er einsdæmi og lýsir því að Flokkurinn sé komin að endamörkum í gagnrýni sinni og sé ekki lengur neitt heilagt í þeirri ætlan sinni að komast aftur til valda. Tilgangurinn er látin helga meðalið. Nú er allt leyfilegt. Fæstir þeir sem voru á mælendaskrá fyrir Flokkinn í umræðunum á föstudaginn voru á staðnum til að geta tekið þátt í umræðunum. Þeir fáu sem voru í húsi endurtóku sig aftur og aftur til að viðhalda málþófinu. Flokkurinn hefur ekki lagt eina breytingartillögu fram við fjárlagafrumvarpið. Ekki eina einustu.
Þá gerist það að tveir stjórnarþingmenn sjá sig knúna til að vekja athygli á þeim ósköpum sem eru að gerast á þjóðþinginu, með táknrænum hætti. Það veldur uppnámi. Flokknum finnst sér misboðið. Hann er móðgaður. Þingfundi er frestað. Það er kallað eftir afsökunarbeiðni.
Er ekki verið að snúa hlutunum á haus?