Hrunið haustið 2008 kafsigldi allt að því íslenskt þjóðfélag til frambúðar. Um tíma leit út fyrir að um algjört þjóðargjaldþrot yrði að ræða. Skuldir stefndu í að vera óviðráðanlegar og tekjur stóðu ekki undir rekstri hvað þá afborgunum skulda. Það var ekki fyrr en um mitt ár 2010 að ljóst var að tekist hafði að forða þjóðinni undan slíkum hörmungum og að stjórnvöld höfðu náð tökum á stöðunni.
En hvernig gerðist það?
Á kjörtímabilinu hefur tekist að ná halla á ríkisjóði niður úr 216 milljörðum króna í það að vera við að nálgast núllið. Það hefur verið gert með því að fara blandaða leið samdráttar í útgjöldum annarsvegar og hinsvegar að afla nýrra tekna, nánast til helminga.
Í óhjákvæmilegum niðurskurði var almennur rekstur og stjórnsýsla látin bera mesta þungann á meðan velferðar- og menntakerfinu var hlíft eina og kostur var.
Samhliða nýrri tekjuöflun hefur tekist að móta nýtt og réttlátara skattkerfi í stað þess vonda og óréttláta sem íslenskir hægrimenn skildu eftir sig. Tekju- og eignamiklum einstaklingum sem áður var haldið í öruggu skattaskjóli er nú gert að leggja meira af mörkum og gjöld á fyrirtæki hafa verið færð nær því sem gerist í öðrum löndum.
Þannig hefur ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tekist á við Hrunið af miklum krafti og um leið náð að móta samfélaginu nýjar og réttlátari leikreglur en áður þekktust.
Þingflokkur Vinstri grænna fól mér forystuhlutverk í framangreindum málum með því að skipa mig til starfa á þeim vettvangi sem tekist var á um þau.
Ég mun hér eftir sem hingað til leggja mig allan fram við að móta íslenskt efnahagsumhverfi og gera það betra og réttlátar en það sem leiddi okkur út í Hrunið.
Til þess þarf ég að fá stuðning í forvali Vinstri grænna í Reykjavík sem nú stendur yfir.
Ég gef kost á mér í 1. – 2. sæti framboðslista Vinstri grænna í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu í næstu Alþingiskosningum.