Hversvegna var Landspítalinn látinn drabbast niður?

Páll Torfi Önundarson skrifar magnaða grein um Landspítalann  í Morgunblaðið í dag. Þar lýsir hann því sem fólk með þekkingu og reynslu af störfum á spítalanum hefur horft upp á spítalann drabbast niður árum og áratugum saman án þess að fá rönd við reist. Landspítalinn er að hans mati og allra sem til þekkja illa farinn af langvarandi fjársvelti og skilningsleysi á mikilvægi þjóðarspítala. Kreppan á Landspítalanum byrjaði ekki 2008 eins og bent hefur verið á hér á þessari síðu og af stjórnendum hans sömuleiðis.

Í niðurlagi greinar sinnar bendir Páll Torfi réttilega á að það er fjárveitingarvaldið, Alþingi, sem ber ábyrgðina á stöðu Landspítalans. Þegar peningarnir voru til varði Alþingi fjármunum sínum í annað.

En hvað? Hvað varð um alla peningana sem stjórnmálamenn fyrri tíma höfðu í höndum sér? Ekki fóru þeir í spítalana. Ekki í velferðarkerfið. Ekki í menntakerfið.

Hvað varð um alla peningana?

Það má líka spyrja að því hversvegna þingmenn Reykjavíkur létu þetta yfir sig ganga áratugum saman án þess að gera allt vitlaust.

Hvernig stendur á því?