Forval í Reykjavík

Eins og fram hefur komið hef ég gefið kost á mér í 1. – 2. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Reykjavík vegna komandi Alþingiskosninga. Á undanförnum vikum hef ég fengið hvatningu frá stuðningsfólki flokksins í Reykjavík í þessa veru sem hafði hvað mest áhrif á að ég tók þessa ákvörðun. Ekki síður hefur góður stuðningur og ráðgjöf minna góðu félaga í NA-kjördæmi haft sitt að segja í þessu sambandi. Það er mat þessa fólks á störfum mínum sem þingmaður Vinstri grænna að vilja hafa mig áfram í forystusveit flokksins.

Þetta er því ákvörðun sem ég hef tekið af vel athuguðu máli, í samráði við fjölskyldu mína og aðra.

Ég ætla að keppa við góða félaga mína og vini um tiltekin sæti samkvæmt þeim lýðræðislegu leikreglum sem okkur eru settar hvað það varðar. Þegar upp verður staðið munum við svo öll meta stöðu okkar með sameiginlega hagsmuni að leiðarljósi og það að markmiði að við sem hópur verðum góður valkostur í kosningum næsta vor.