Skýrsla Ríkisendurskoðunar um mannauðs- og fjárhagskerfi ríkisins er mikill áfellisdómur yfir innleiðingu kerfisins. Beðið hefur verið eftir þessari skýrslu allt frá árinu 2004 þegar Alþingi óskaði eftir úttekt á málinu. Áragömul drög af skýrslunni sem láku út úr stofnuninni í haustbyrjun og vöktu skiljanlega mikla athygli enda um gríðarlega stórt mál að ræða. Skýrsla Ríkisendurskoðunar frá því í gær byggir á þeim drögum sem þegar hafa birst og staðfestir allt það sem áður komið fram. Innleiðingin er harðlega gagnrýnd, stjórnvöld þess tíma sömuleiðis sem og ferlið allt. Í nýju skýrslunni kemur fram að við mat á tilboðum í kerfið Nýherji skoraði hærra á öllum sviðum en Skýrr – nema í kostnaði og við vitum nú öll hvernig það fór (sjá töflu á bls. 20). Þeirri spurningu er því enn ósvarað hversvegna gengið var til samninga við Skýrr um þetta gríðarlega stóra verk sem fór svo rækilega úr böndum.
Skýringar Ríkisendurskoðunar á þeim drætti sem orðið hefur á skýrslunni vekja líka upp fleiri spurningar en þær svara. Skýringarnar eru þessar helstar (bls. 11):
Eins og sjá má af þessu er um samfellda raunasögu að ræða af hálfu Ríkisendurskoðunar varðandi þetta mál eins og stofnunin sjálf lýsir því. Hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? Af hverju töldu yfirmenn stofnunarinnar skýrslur starfsmanna sinna ófaglegar? Af hverju töldu þeir starfsfólk sitt draga rangar ályktanir af þeim gögnum sem þau höfðu undir höndum? Á það sama við um skýrsluna frá því í gær sem er einn stór áfellisdómur yfir málið allt, þ.m.t. hlut Ríkisendurskoðunar? Hvaða hagsmunir réðu því að málinu virðist endalaust hafa verið skotið á frest í hvert sinn sem og starfsmenn Ríkisendurskoðunar virtust tilbúnir með sitt? Er ástæðan fyrir því að málinu er á endanum lekið út úr stofnunni sú að starfsmönnum eða starfsmanni er ofboðið hvernig staðið var að máli?
Það þarf að fá svör við þessum spurningum og mörgum fleirum um þátt Ríkisendurskoðunar í þessu stóra máli.
Hinn hluti þessa máls, þ.e. hvernig staðið var að málinu í heild sinni af hálfu stjórnvalda, verður að rannsaka frekar.