Gleðilegt nýtt ár!

Nýtt fiskveiðiár hefst í dag. Að baki er eitt besta ár í sjávarútvegi sem um getur. Fiskistofnar eru flestir á uppleið og veiðiheimildir aukast jafnt og þétt. Fyrirtækin blómstra sem aldrei fyrr, hagnaður af rekstri mikill og skuldir fara hríðlækkandi. Milliuppgjör HB-Granda er gott dæmi um þetta. Þar kemur m.a. fram að EBITDA eykst um 14% frá sama tíma í fyrra, vergur hagnaður eykst um 16%, seldar voru vörur fyrir 22% hærri upphæð, vaxtaberandi langtímaskuldir lækka um 28% og eigiðfjárhlutfall er 58%, sé miðað við milliuppgjör síðasta árs. Virði aflaheimilda er endurmetið og sýnist mér í fljótu bragði að tonnið sé metið á ríflega þrjú þúsund krónur miðað við stöðu aflaheimilda fyrirtækisins. Ef litið er framhjá því er hreinn hagnaður fyrirtækisins á fyrstu 6 mánuðum árum um þrír milljarðar króna.

Ísfélagið í Vestmannaeyjum hefur nýlega afgreitt reikninga síðasta árs og vænta má að niðurstöður hans sýni einnig afar góða afkomu. Fjárfesting í sjávarútvegi er mikil og vaxandi þessi misserin og hvergi bjartara yfir íslensku atvinnulífi en einmitt þar. Það vitnar um afkomuna og þá bjartsýni sem ríkir í þessari mikilvægu atvinnugrein.

Útgerðin greiðir nú sanngjarnt veiðigjald af tekjum sínum til samfélagsins sem þannig nýtur með beinum hætti góðs af rífandi gangi í greininni.

Bankarnir eru þeir einu sem hafa af þessu áhyggjur enda er útgerðin að greiða skuldir sínar svo hratt niður að hætta er á því að bankarnir séu við það að missa sína bestu skuldara.

Það hefur því komið enn og aftur í ljós að þegar illa árar í íslensku efnahagslífi er það sjávarútvegur sem rífur okkur aftur upp á rassgatinu. Það er gömul saga og ný.

Það er við hæfi að fagna nýju fiskveiðiári og kveðja það gamla með virktum.