Flokkurinn og samneyslan

Skilgreiningin á samneyslu er eitthvað í þá áttina að um sé að ræða neyslu/þjónustu sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og allir eiga að geta nýtt sér. Dæmi um þetta er heilbrigðiskerfið, menntakerfið, bótakerfið, samgöngur o.fl. slíkt. Orðabók Háskólans segir að um sé að ræða "neyslu sem keypt er og fjármögnuð af ríkinu, þ.e. opinber neysla". Samtök atvinnulífsins skilgreina samneyslu sem „samanlögð neysla ríkissjóðs, sveitarfélaga og almannatrygginga. Til samneyslu teljast laun og tengd gjöld þessara aðila, kaup þeirra á vöru og þjónustu, að frádreginni sölu, og afskriftir. Dæmi um samneyslu eru launaútgjöld í heilbrigðis- og menntaþjónustu og kaup þessara greina á þjónustu. Önnur dæmi um samneyslu eru rekstur stjórnsýslustofnana ríkis og sveitarfélaga, dómstólar og löggæsla.“

Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins vill skera niður útgjöld til samneyslunnar. Það þýðir að hann vill skera niður útgjöld til heilbrigðismála, menntamála og lækka bótagreiðslur til þeirra sem þeirra njóta.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir það rangt að með þessum yfirlýsingum sínum hafi Bjarni fært sjálfstæðisflokkinn lengra til hægri en hann hefur verið. Ég er aldrei þessu vant sammála prófessor Hannesi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert færst, hvorki til hægri eða vinstri. Hann er enn á sama stað og hann hefur alltaf verið, a.m.k. hvað viðhorf til samneyslunnar varðar. Sjálfstæðisflokkurinn leggst gegn samneyslu og styður við einkavæðingu heilbrigðis- og menntakerfisins eins og hann hefur alltaf gert. Þetta vita stuðningsmenn Flokksins eins og t.d. þessi hér sem treystir á að hans menn haldi leiknum áfram fái þeir tækifæri til þess.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði í fyrra fram á þingi tillögur í efnahagsmálum sem þau kalla „Gefum heimilunum von“. Þar er fyrri stefna flokksins um skattalækkanir og minni samneyslu ítrekuð. Þar skýrt talað um nauðsyn þess að auka „hagræðingu í grunn- og framhaldsskólum landsins“ og „endurskipulagningu og frekari hagræðingu í heilbrigðiskerfinu með því að auka hagkvæmni, auka svigrúm fyrir starfsemi einkaaðila og byggja í auknum mæli á samkeppni um þá þjónustu sem veita þarf.“

Sjálfstæðisflokkurinn heldur einnig fast í þá stefnu sína að knésetja Íbúðalánasjóð með því að „auka samkeppni á íbúðalánamarkaði“ í þeim tilgangi að „auðvelda fólki endurfjármögnun fasteignaskulda“.

Í stuttu máli vill sjálfstæðisflokkurinn draga enn frekar úr útgjöldum til menntamála, einkavæða heilbrigðiskerfið og fela bönkunum fjármögnun íbúðakaupa, svo fátt eitt sé nefnt.

Þetta er allt nokkuð skýrt og gamalkunnugt – er það ekki?