Kristján Þór Júlíusson fór til sjós í sumar eins og hann hefur reyndar áður gert á eftir að hann var kjörin á þing. Það finnst mér vera gott hjá honum að gera og mættu fleiri þingmenn taka hann sér til fyrirmyndar. Þannig kemst maður í annarskonar samband við fólkið í landinu, fær annan vinkill málin og víkkar sjóndeildarhringinn eins og ég hef áður bent á af minni reynslu sem sjómaður.
Það sama á auðvitað við um önnur störf. Það er alltaf gott að skipta um umhverfi og kynnast nýju fólki.
Sjálfur fór ég einn túr á mitt gamla skip árið 2009, stuttu eftir að ég var kosinn á þing. Ég þurfti þá að vinna hluta uppsagnarfrests samkvæmt samkomulagi þar um við fyrverandi vinnuveitanda minn, sem ég og gerði og kallaði varamann inn fyrir mig á þingið á meðan.
Ég var gagnrýndur mjög harðlega fyrir að fara þessa veiðiferð – af Kristjáni Þór Júlíussyni!! Það fannst mér ómaklegt og svaraði honum því fullum hálsi. Nú hefur Kristján Þór hinsvegar fengið aðra sýn á lífið og áttað sig á því eins og aðrir góðir menn það er ekkert nema gott við það að brjóta upp hversdagsleikann og bregða sér á sjó af og til. Svo er hann líka farinn að tala eins og hann heldur að sjómenn eigi að gera.
Það verður gaman að setjast niður með Kristjáni Þór í haust yfir könnu af Gulum Braga og fá nokkrar hressandi sögur af sjónum.