Aflaskipið Guðmundur í Nesi kom með enn einn stórfarminn að landi í morgun, nú að verðmæti 450 milljónir sem er án nokkurs vafa mesta verðmæti sem íslensk skip hefur borið að landi úr einni veiðiferð. Guðmundur í Nesi hefur nánast eingöngu verið gerður út til grálúðuveiða frá því hann var keyptur til landsins og alltaf verið í hópi þeirra skipa sem hafa skilað mestu verðmæti á hverju ári. Skipstjórarnir tveir, þeir Jóel og Guðmundur hafa ásamt áhöfnum sínum náð yfirburða tökum á þessum veiðiskap sem fáir ef nokkrir hafa náð að leika eftir. Veiðar á grálúðu hafa gengið upp og ofan mörg undanfarin ár og eftir því sem ég best veit er Guðmundur í Nesi eina skipið sem svo til eingöngu er gert út til þeirra veiða. Guðmundur í Nesi er vel útbúið skip sem dregur á eftir sér tvö troll enda aflamikið og með mikinn togkraft. Enda þarf það til á grálúðuveiðar eigi þær á annað borð að skila árangri. Veiðarnar eru að mestu stundað á svo kölluðu Hampiðjutorgi, um 100 mílur vestur úr Bjargtöngum (sjá hér) sem er afar erfitt hafssvæði að stunda yfir vetrartímann.
Það vekur athygli í þessu sambandi að ein af ástæðum þess sem framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum gaf fyrir því að selja skip og segja upp ríflega fjörtíu manns á dögunum var léleg afkoma af grálúðuveiðum. Eigendur Brim hf., útgerðar Guðmundar í Nesi eru stórir hluthafar í Vinnslustöðinni og gætu því án efa snúið þeirri tapútgerð í arðvænlegri farvegi fengju þeir tækifæri til þess. En það er nú annað mál.
Það er hinsvegar full ástæða til að óska áhöfnunum á Guðmundi í Nesi til hamingju með frábæran árangur í sínum störfum.
Það mun (eins og ég hef áður sagt), verða sjávarútvegurinn sem enn og aftur rífur þetta land upp úr skítnum þegar misvitrir stjórnmálamenn hafa klúðrar málunum eins og hér gerðist.
Það er gömul saga og ný.