Ekki gild skýring hjá Vinnslustöðinni

Vinnslustöðin hf. gerir út einn elsta flota landsins. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins er meðalaldur skipaflota þess  26 ár. Allt frá árinu 2004 hefur hagnaður fyrirtækisins aukist á sama tíma og launahlutfall hefur lækkað. Á sama tíma hefur verið dregið úr endurnýjun og endurbótum á skipum og búnaði eins og sjá má á línuritinu hér að ofan sem fengið er frá Vinnslustöðinni. Fjárfesting í nýjum skipum hefur því ekki verið fyrirtækinu þungbær til þessa. Vinnslustöðin hefur sömuleiðis átt við ákveðin innanmein að stríða sem hefur kristallast í átökum milli eigenda fyrirtækisins sem staðið hafa yfir í mörg ár.

Hún er því ekki gild sú skýring eigenda fyrirtækisins að kenna aðgerðum stjórnvalda um að þurfa að segja upp tugum starfsmanna sinna.

Það er slæmt þegar fyrirtæki þurfa að segja starfsfólki upp og það er slæmt þegar selja verður atvinnutæki frá sér. Það er slæmt fyrir viðkomandi starfsmenn, fyrirtækið sem í hlut á og samfélagið sem það starfar í.

Það gerir hlutina ekki betri að kenna öðrum um ófarirnar.