Framsóknarmenn virðast hafa lagt í talsverða vinnu við að átta sig á stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum eins og hún var samþykkt á flokksþingi Framsóknarflokksins vorið 2011. Niðurstaða þeirra er sú að Framsóknarflokkurinn í dag sé allt annarra skoðunar en Framsóknarflokkurinn var í fyrra og algjörlega á allt annarrar skoðun en stjórnarflokkarnir samkvæmt því sem sjá má í frumvarpi um stjórn fiskveiða og frumvarpi um veiðigjöld sem Alþingi er nú með til umfjöllunar.
Nú skulum við líta aðeins á þetta og bera saman stefnu framsóknar og megininntak frumvarpanna tveggja.
1. Framsóknarflokkurinn hafnar fyrningarleiðinni sem fiskveiðistjórnunartæki.
OK. Efnislega samhljóða frumvarpi um stjórn fiskveiða.
2. Stjórnun fiskveiða verði blönduð leið, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hinsvegar úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum, auk hvatningar til nýsköpunar og til þess að auðvelda aðgengi nýrra aðila að útgerð.
OK. Samhljóða frumvarpi um stjórn fiskveiða (8.gr.).
3. Tryggja verður sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindum m.a. með ákvæði í stjórnarskrá sbr. lög nr. 116 frá 2006. – 1. gr. „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“
OK. Samhljóða frumvarpi um stjórn fiskveiða (1.gr.).
4. Úthlutun veiðileyfa verði gerð með þeim hætti að skilgreina tvo potta. Pottur 1 þar sem gerður verði nýtingarsamningur til u.þ.b. 20 ára, á grunni aflahlutdeildar á hvern bát. Greitt verði fyrir nýtingarréttinn með árlegu veiðigjaldi. Gjaldið verði hóflegt og tengt afkomu greinarinnar.
OK. Samhljóða frumvarpi um stjórn fiskveiða (11.gr.) og frumvarpi um veiðigjald (7.gr. og 8.gr.)bara spurning um upphæðir.
Pottur 2 þar sem veiðileyfum verði úthlutað til:
a. Fiskvinnslu. – Um er að ræða byggðaívilnun þar sem að aflaheimildum verði fyrst og fremst úthlutað til fiskverkenda þar sem það á við. Fiskvinnslurnar semji við einstaka útgerðir um veiðar.
Ekki gert ráð fyrir því í frumvörpum stjórnarinnar að fiskvinnslum verði úthlutað aflaheimildum.
b. Ferðaþjónustuveiða. – Þar sem þessum aðilum verði tryggð aflahlutdeild með því að landa aflanum til hafrannsóknastofnunar – VS-afli . Setja þarf sérstakar reglur um úthlutunina.
OK. Efnislega samhljóða frumvarpi um stjórn fiskveiða (24.gr.).
c. Nýsköpunar. – Stuðningur við nýsköpun m.a. með leyfum í meðafla og til sérstakra verkefna auk beins fjárstuðnings.
OK. Efnislega samhljóða frumvarpi um stjórn fiskveiða (19.gr.) .
d. Strandveiða – nýliðunarpottur. – Megin tilgangur strandveiða er að auðvelda nýjum aðilum að hefja útgerð og má hver aðili einungis fá úthlutað einu strandveiðileyfi. Stefnt sé að því að Pottur 2 ýti undir nýsköpun og nýliðun, hvetji til frekari nýtingu auðlindarinnar, auk byggðatengdra aðgerða. Núverandi tilfærslur eru 3,5% af heildarþorskígildum og mjög mismunandi eftir tegundum allt frá 0-10%. Samhliða stofnstærðaraukningu einstakra tegunda vaxi Pottur 2 á allra næstu árum þannig að af tegundum sem engin tilfærsla er á í dag verði hann3-5% og af öðrum stofnum allt að 10%. Stefnt sé að því að Pottur 2 vaxi enn frekar, en þó aldrei meira en 15% af einstökum tegundum meðtilliti til stofnstærðaraukningar og reynslu af úthlutunum til Potts 2.
OK. Samhljóða frumvarpi um stjórn fiskveiða varðandi strandveiðar og nýliðun (18.gr og 20.gr). Að öðru leiti gengur Framsóknarflokkurinn í við lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir varðandi stærð í potti 2.
5. Veiðigjald/auðlindarentan sem sjávarútvegurinn greiðir verði nýtt að hluta til nýsköpunar, rannsókna og markaðsstuðnings innan greinarinnar sjálfrar. Hluti renni til þess landsvæðis þar sem veiðigjaldið verður til t.d. til atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi svæðis og hluti í ríkissjóð.
OK. Samhljóða frumvarpi um stjórn fiskveiða (19.gr.)
6. Sjávarauðlindin er í senn gjöful en takmörkuð. Því er mikilvægt að hlúa að nýsköpun og enn frekari nýtingu hráefnis til að skapa verðmæti og auka arðsemi. Setja þarf fram efnahagslega hvata til að auka nýtingu á hráefni sem í dag er illa eða ekki nýtt.
OK. Efnislega samhljóða markmiðum frumvarpana.
7. Mikilvægt er að nýta auðlindina sem skynsamlegast og byggja á grunni vísindalegrar þekkingar og sjálfbærni lífríkisins. Stefnt skal að því að setja fram nýtingarstefnu (aflareglu) um alla stofna sem miðist við að byggja þá upp til að þola hámarksnýtingu til langstíma.
OK. Efnislega samhljóða frumvörpunum. Ekki getið um aflareglu á alla stofna í frumvörpunum – en þar er ég sammála framsókn.
8. Sjávarútvegur er grunn atvinnuvegur þjóðarinnar. – Mikilvægt er að menn átti sig á að sjávarútvegur er ekki aðeins veiðar heldur hátæknivæddur matvælaiðnaður sem byggir á öflugri og þróaðri vinnslu og markaðssetningu. Hluti af ferlinu er nauðsynleg gæða- og umhverfisvottun.
Ekki sérstaklega getið um þetta í frumvörpunum – aftur er ég sammála framsókn.
9. Til að tryggja áframhaldandi forystu Íslendinga á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafsins verði hugað í vaxandi mæli að umhverfislegum þáttum og augljósu samspili nýtingar hinna ýmsu tegunda í hafinu.
OK. Efnislega samhljóða markmiðum frumvarpana.
Samkvæmt þessu þá er það tæplega af málefnalegum ástæðum sem Framsóknarflokkurinn getur ekki stutt frumvörp stjórnarflokkanna.
Hver ætli ástæðan sé þá?