Aparnir á Alþingi og hinir þingmennirnir

Það hefur ekki verið mikill sómi af störfum þingsins undanfarna daga. Stjórnarandstaðan hefur bætt tólum í vopnabúr sitt, ætluðum að koma í veg fyrir öll mál ríkisstjórnarinnar. Áður höfðu þau þróað hin mjög svo uppbyggilegu sýndarandsvör sem felast í því að þingmenn úr sama þingflokki nota ræðustól þingsins til að spyrja hvern annan hvað þeim finnist um hitt og þetta. Afar athyglisverðar samræðu. Nú hafa þau tekið upp það ráð að koma í veg fyrir að ný þingmál komist á dagskrá þingsins og til nefnda og þannig í leiðinni varnað almenningi í landinu að hafa áhrif á þau. Enda treysta þau ekki almenningi til slíkra verka eins og sjá má á afstöðu þeirra gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um nýju stjórnarskrá. Stjórnarliðar hafa haldið sig til hlés í umræðunum síðustu daga á meðan andstaðan hefur haldið málþófi sínu gangandi.

Yfirbragð þingsins hefur ekki verið áferðarfallegt og engum til gagns, hvorki þingmönnum né þjóðinni. Reyndar á íslenska þjóðin kröfu á afsökunarbeiðni frá þinginu og þeim sem hafa smánað það með framgöngu sinni að undanförnu.

Þingmaður Hreyfingarinnar segist ekki treysta sér til þings enda sé þinghúsið fullt af bavíönum sem sé þingmanninum ekki samboðið að umgangast ef marka má skrifin.

Þrátt fyrir allt þá verð ég að vera ósammála þessum annars ágæta þingmanni og tel skrif hennar bæði ósanngjörn og ómakleg gagnvart samstarfsfólki hennar sem og þinginu sem stofnun.

Ég trúi því að hver einasti þingmaður vilji láta gott af sér leiða. Ég tel einnig að stór hluti þingmanna sé að leggja talsvert á sig til þess. Vissulega ekki allir en stærsti hlutinn. Ég tel að góður meirihluti þingmanna vilji í einlægni leita lausna á þeim málum sem þingið hefur til umfjöllunar hverju sinni og leiða þau til lykta í samstarfi við aðra þingmenn. Ég held að minnihluti þingmanna vilji vinna pólitískum andstæðingum sínum ógagn í þeim tilgangi einum að skaða þá og láti sig þá litlu varða um afleiðingar þess fyrir þjóðina.

Minnihlutinn er hinsvegar oft fyrirferðarmikill og ráðandi eins og dæmin sýna.

Kannski á Margrét Tryggvadóttir ekki eftir að kom til þings aftur vegna þess að hún vill ekki vera undir sama þaki og ég eða Oddný Harðardóttir eða Guðlaugur Þór Þórðarson eða Eygló Harðardóttir og allir hinir bavíanarnir. Ég myndi samt veðja á að hún mæti til vinnu sinnar á endanum eins og aðrir þingmenn. Það mun hún þá væntanlega gera á jafningjagrundvelli við okkur hin, annaðhvort sem hluti af þeim meirihluta þingsins sem er að reyna að gera vel – eða sem einn af bavíönunum.

Það verður hinsvegar að vera hennar val.