Hluti stjórnarandstöðunnar hefur tekið Alþingi í gíslingu með ótrúlega ósvífnu málþófi. Undir tryggri og öruggri forystu sjálfstæðisflokksins sem berst af hörku gegn öllum breytingum á því stjórnkerfi sem til varð undir hans stjórn, hefur tekist að koma í veg fyrir að brýn mál fái þinglega meðferð. Sem dæmi um slík mál má nefna niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði, atvinnutengda starfsendurhæfingu, réttindagæsla fyrir fatlað fólk, aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi, nauðungarsala, aðför og meðferð einkamála, greiðsluaðlögun einstaklinga, bætt heilbrigðisþjónusta fyrir ungt fólk – svo dæmi séu aðeins tekin af dagskránni eins og hún leit út í gær.
Með málþófi sínu kemur andstaðan í veg fyrir að framangreind mál (og fleiri) komist til nefndar og umsagnar í samfélaginu. Málþófið hefur þar með þær afleiðingar að almenningi og þeim sem hagsmuna hafa að gæta er meinað um að hafa áhrif á málin. Málþófið er því tilræði við lýðræðið í landinu.
Tilraunir til að semja um lyktir mála hafa ekki gengið eftir og fátt sem bendir til þess að slíkt verði.
Nú þegar hafa verið haldnar yfir 60 ræður um eitt og sama málið sem þau hafa valið til að nota í málþófið. Alls hefur verið farið í nærri 230 sinnum í andsvör og jafn mörg svör verið veitt við þeim. Rætt hefur verið um 50 sinnum um fundarstjórn forseta undir þessari umræðu.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur forystu um það að eyðileggja þingstörfin og framsókn siglir jarmandi í kjölfarið á þeim.
Nýyrðið þingskömm heyrðist á göngum þingsins í dag. Það á við um þá sem hafa hagað málum sínum með þeim hætti sem sjálfstæðisflokkurinn hefur gert á Alþingi.
Það er þingskömm af þeim eins og þau haga sér þessa dagana.